Færsluflokkur: Bloggar

Af lýðræði í héraði og svoleiðis smotteríi.

 Eins og allir vita verða sveitarstjórnarkosningar í vor. Í síðustu kosningum voru boðnir fram hér í Þingeyjarsveit tveir listar; listi Samstöðu og Framtíðarlistinn.
Ef ég man rétt, og við skulum hafa fyrirvara á minni mínu sem og því sem ég hef heyrt,  ég studdi nefnilega ekki lista Samstöðu og tók ekki þátt í starfi hans, þá hélt Samstaða opna málefnafundi þar sem allir íbúar sveitarfélagsins voru velkomnir. Þessi vinnubrögð voru alveg frábær og á Samstaða heiður skilið fyrir þau. Ég veit ekki hvernig var raðað á listann en, og hér treysti ég á sögusagnir svo við skulum hafa fyrirvara á þessu, það gekk um sveitina að það hefði ekki náðst samstaða um oddvita. Addi Ben var reiðubúinn að leiða listann en fékk ekki meirihluta. Þess vegna var Ólína Arnkels fengin til að leiða listann þó svo að hún hafi gefið það út að hún vildi hætta.
Núna berast fréttir af því að Árna Pétri hafi verið ,,boðið" þriðja sætið á listanum og Addi Ben ,,verði" í fyrsta sæti og Margrét í Dæli í öðru.
Við skulum hafa það alveg á hreinu að ég styð ekki Samstöðu svo mér kemur þetta auðvitað ekkert við en ég er talsvert undrandi á þessum fréttum. Getur fólk virkilega bara sett sjálft sig í sæti? Hafa verið fundir? Það hefur alla vega ekki frést af neinum fundum. Hefur uppstillingarnefnd verið að störfum? Er bakland Samstöðu sátt við þetta? Er engir aðrir á listanum sem gætu hugsað sér að færast ofar, jafnvel takast á um oddvitasætið?
Eins og ég segi, mér kemur þetta auðvitað ekkert við, mér þætti samt gaman að vita þetta. Mér finnst líka eðlilegt að kjósendur viti hvaða aðferð er notuð til að raða á lista.



Fullkomlega eðlilegar embættisfærslur

2009.

Ákveðið að leggja niður Tónlistarskólann við Hafralæk og gera hann að undirdeild í skólanum. Auglýst er eftir deildarstjóra í 100% stöðu og er ,,æskilegt" að hann hafi píanó og kórstjórn á valdi sínu. Gróa Hreinsdóttir sem hafði sinnt afleysingum sem skólastjóri og er bæði píanókennari og kórstjóri sækir um en einnig ungur maður frá Brasilíu. Hann kann hvorki á píanó né kórstjórn. Hann er engu að síður ráðinn í 100% stöðu sem og eiginkona hans í óvænta og óauglýsta 60% stöðu.

Framhald þeirrar sögu þekkja lesendur mínir núorðið.

 

2010-2011

Vegna barnafjölgunar í Barnaborg (leikskóli sem er undirdeild í Hafralækjarskóla) er ákveðið að opna útibú í skólanum sem er skírt Lækjarborg og elstu börnin send þangað. Ung kona frá Þýskalandi sem hefur unnið við leikskólann frá ca. 2006 og er menntaður grunnskólakennari er fengin til að fara yfir og gerð að deildarstjóra. Enginn annar starfsmaður vildi taka þetta að sér. Með henni er nýráðin ung einstæð móðir.

Um vorið 2011 hefur börnunum fækkað svo Lækjarborg er lögð niður. Ungu konunum er báðum sagt upp á þeirri forsendu að deildin þeirra hafi verið lögð niður. Þýska stúlkan var ekki nýjasti starfsmaður leikskólans og var á þessum tímapunkti menntaðasti starfsmaðurinn. Hún hefði að sjálfsögðu aldrei samþykkt þennan flutning ef hún hefði vitað að hann fæli þetta í sér. Þessari ákvörðun var ekki haggað en henni voru boðnar ræstingarnar í leikskólanum. Af hrikalegum menntahroka hafnaði hún því góða boði.

Ekki leið á löngu að ráða þurfti nýtt fólk inn og fékk einstæða móðirin afleysingavinnu.

 

2012.

Vegna laga/reglna þarf að auglýsa allar stöður ófaglærðra sem voru ráðnir eftir 2008 í leikskólanum. Unga mamman sækir um stöðuna sem hún hafði sinnt en fram hjá henni er gengið. Dóttir skólastjórans er ráðin.

Vert er að taka fram að skólastjórinn var í námsleyfi þennan vetur en var komin aftur til starfa í litla stöðu til að vinna að meintri sameiningu skólanna.

Kona sem hefur unnið í nokkur ár við leikskólann gefst upp og hættir. Foreldrar söfnuðu undirskriftum til að fá hana til að skipta um skoðun en hún var búin að fá nóg.

 

2012-2013

Aftur mikil fjölgun barna svo Lækjarborg er opnuð aftur. Aftur mikil fækkun svo Lækjarborg er lokað aftur. Núna bregður hins vegar svo við að ekki þarf að segja upp starfsmönnum niðurlögðu deildarinnar.

 

nepotism.jpg

 

 

 

 


Varðandi tilkynningu frá Þingeyjarsveit

Þann 2. júni 2013 barst sveitarstjóra og formanni fræðslunefndar tölvupóstur frá foreldri barns í Þingeyjarskóla. Bréfið ber yfirskriftina Kvörtun vegna viðhorfs skólastjóra og skólasálfræðings Hafralækjarskóla til eineltis og hefst á orðunum Kæra Þingeyjarsveit.*

Nú mætti ætla að bréf sem ávarpar Þingeyjarsveit ætti erindi til sveitarstjórnar en það er sveitarstjóra að meta slíkt. Hins vegar á bréfið klárlega erindi við fræðslunefnd.

Bréfið var rætt utan dagskrar í fræðslunefnd og almennir fulltrúar fræðslunefndar fengu ekki afrit af bréfinu né að sjá það yfir höfuð.  Hvaða upplýsingar þeir nákvæmlega fengu er ómögulegt að segja. Hins vegar er ljóst að bréfinu sjálfu var ekki hleypt lengra, það var ekki rætt sem trúnaðarmál á fundi fræðslunefndar, það var ekki fært í trúnaðarmálabók og koma bréfsins var ekki nefnd einu orði þegar gerð var grein fyrir fundargerð fræðslunefndar á sveitarstjórnarfundi. Tilvera bréfsins er því væntanlega hvergi skráð í gögnum Þingeyjarsveitar.

Ferlið fólst sem sagt í því að koma kvörtuninni yfir viðhorfi skólastjórans og skólasálfræðings til eineltismála í hendur skólastjórans sem kvartað var yfir.**

Eðlilegt ferli .... Kona spyr sig.

 

*Ég veit af þessu bréfi aðeins og eingöngu í gegnum kunningsskap. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það sem sveitarstjórnarfulltrúi. 

 

**Vinsamlegast athugið að ég er ekki að taka afstöðu til kvörtunarinnar. Hins vegar þykir mér eðlilegt að málið sé kannað af öðrum en hlutaðeigandi.


Formleg uppgjöf

Fyrirvari: Þessi færsla byggir á upplifun minni og tilfinningum samfara henni.

Eins og margoft áður hefur komið fram þá tók ég mig upp með rótum árið 2005 og flutti landshorna á milli. Þar inni spiluðu ýmsar ástæður, aðallega þær að mér fannst lífið vera í ákveðinni kyrrstöðu. Þetta kyrrstöðulíf var samt á margan hátt ágætt, ég var t.d. í skemmtilegri kennslu í Fellaskóla. Þegar ég ákvað að leita annað fékk mjög góð meðmæli frá skólastjórnendum þar.

Á þessum tímapunkti voru ekki margar kennarastöður lausar á landsbyggðinni, mig minnir að auglýst hafi verið eftir kennara á Kirkjubæjarklaustri sem og í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Einhverra hluta vegna sótti ég um stöðuna í Aðaldal. Ég man ekki hvað olli því, þetta var e.k. happa-glappa val.

Ég var ráðin og varð heimakennari í Árbót auk þess sem ég kenndi ensku á unglingastigi í Hafralækjarskóla.

Hér segja allir allt við alla

Fljótlega varð mér ljóst að það var undarlegt andrúmsloft í Hafralækjarskóla. Það höfðu verið leiðindi veturinn áður en þá flæmdu kennararnir þáverandi skólastjóra í burtu af ástæðum sem fengust seint og illa uppgefnar. Samstarfskona mín ein skynjaði að ég var hálf hvumsa á því hvernig fólk leyfði sér að tala og koma fram við hvert annað. Hún sagði mér: ,,Hér segja allir allt við alla." Ég skildi það sem svo að samfélagið væri smátt, við ynnum saman, sum okkar bjuggu á sömu torfunni, flest tengdust einhvern veginn, voru vinir eða vandamenn. Það væri sem sagt ákveðin fjölskyldustemning í hópnum.

Þegar ég var búin að vera nógu lengi til þess að fólk taldi sig ekki þurfa að sýna mér lágmarkskurteisi lengur þá komst ég að því að þetta var ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Á þessum vinnustað sögðu ákveðnir aðilar allt sem þeim sýndist við suma.

Eitthvað óljóst

Ég áttaði mig á því í fyrsta starfsviðtalinu að eitthvað var ekki í lagi. Þá var mér sagt að nemendur hefðu kvartað undan mér. Þeim fannst ég að vísu skemmtileg og líkaði vel við mig en þau voru ,,eitthvað óörugg."  Það er ,,eitthvað", ,,erfitt að festa hendur á því." Vinsamlegast taktu það til greina. (!?!) Það fékkst aldrei uppgefið nákvæmlega hvað ,,þetta" var né heldur undir hvaða kringumstæðum þessi umræða fór fram. Bara inni í bekk hjá öðrum kennara.

Um vorið keyrði svo um þverbak þegar ég lagði fyrir ,,níðþungt" próf í ensku.

Ég lagði fyrir gamalt próf sem ég kom með úr Fellaskóla. Þetta gamla próf úr Fellaskóla í Reykjavík var ,,alltof, alltof þungt.” Þetta var rætt fjálglega á kennarastofunni frétti ég síðar. Þegar ég kem á kennarastofuna þótti fullkomlega eðlilegt að ræða þetta skelfilega próf þar og setja niður við mig í vitna viðurvist. Ég var einnig beðin um að ,,endurskoða” prófið. Ég átti sem sagt að gera prófið léttara svo útkoman yrði betri. Meðaleinkunn var 6,5 svo ég varð ekki við þessari beiðni. Verst þykir mér þó að engum þótti það áhyggjuefni að gamalt próf úr Fellaskóla í Reykjavík þætti alltof þungt fyrir nemendur skólans. 

 

Jón og séra Jón

Það var vandlega raðað í virðingarstigann. Við vorum þrjú sem sátum á neðsta þrepi. Þau sem höfðu staðið með fv. skólastjóra og svo ég, aðflutta pakkið.

Lengi vel hélt ég að skiptingin væri ekki meiri en þessi þar til að ein samstarfskona sagði eftir að ég fékk ávíturnar að það væri ekki sama hvort það væri Jón eða séra Jón og hún fengi nú aldeilis að finna það líka.

Að endingu var mér svo sagt upp vegna niðurskurðar. Í rökstuðningi kom fram að það væri fækkun nemenda og svo var hnýtt við í lokin að litið hefði verið til ,,hæfni".

Ég var sem sagt óhæf. Það kom mér auðvitað ekki á óvart, þannig hafði stöðugt verið komið fram við mig síðastliðin fjögur og hálft ár. Það sem mér þykir merkilegt er að ég skuli vera hæf í Fellaskóla,(fékk mjög góð meðmæli þaðan)  ég er hæf í Árbót (finn ekki ársskýrslurnar á netinu en þær eru til) en ég er óhæf í Hafralækjarskóla.

Svo eru það allar hinar óhæfu, aðfluttu konurnar

En ég er ekki að segja þessa sögu alla bara út af sjálfri mér. Það er nefnilega ekki bara ég sem er aðflutt og óhæf. Það hafa fleiri konur verið látnar fara og þær hafa ekki allar tekið því þegjandi í hljóðalaust.

Gróa Hreinsdóttir kærði þegar gengið var fram hjá henni.

Það sem ein kona getur verið barnaleg

Ég hélt hreint út sagt að fólk myndi eitthvað átta sig þegar ráðuneytið úrskurðaði Gróu í vil. Ekki aldeilis. Þingeyjarsveit tapaði málinu á ,,tæknilegu atriði" það láðist nefnilega að kalla Gróu í viðtal. Þegar ég les úrskurðinn þá sé ég að mat á ,,persónulegum eiginleikum" hafi ráðið úrslitum. Guð minn almáttugur hvað mig langar ekki að búa í heimi þar sem persónulegt mat einhvers einstaklings á persónulegum eiginleikum mínum ræður úrslitum um möguleika mína á starfi. Sérstaklega ekki þegar viðkomandi einstaklingur hefur margsýnt að hann þoli mig ekki. En það er auðvitað bara ég.

Þá hélt ég að fólk myndi eitthvað átta sig þegar foreldri skrifaði bréf og kvartaði undan viðhorfum til eineltismála. Ekki aldeilis. Því bréfi var stungið undir stól. Það er sem sagt fullkomlega eðlilegt að ,,einstaklingar útiloki úr hópnum þá einstaklinga sem hugnast þeim ekki." Jafnræðisregla? Hvað er það?

Þá hélt að fólk myndi átta sig þegar Gróa vann í héraðsdómi. Nei, nei, nei. Biðjast afsökunar? Á hverju og af hverju? Hvað er eiginlega að þér? 

Við útilokum þá sem hugnast okkur ekki

Það er sem sagt orðið ljóst að það er ég sem veð í villu og svíma. Mér skjátlast. Það er allt í lagi að koma fram við fólk eins og skít. Það er bara ég sem er svona fáránlega viðkvæm. Það er allt í lagi að hópurinn útiloki þá sem honum líkar ekki við. Ef ég segi þetta nógu oft við sjálfa mig þá trúi ég því kannski á endanum.

Ég hef verið að bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég sé það núna. Ég sætti mig við það og gefst upp. Þið vinnið.

 

Kjörorð Þingeyjarsveitar


Íslenskt ævintýr

Inngangur.

Einu sinni var ungur maður sem hét Tvírekur. Tvírekur var silfursmiður góður sem sérhæfði sig í smíði armbanda. Tvírek langaði til að sjá sig um í heiminum áður en hann festi rætur og fór á flakk.
Tvírekur hafði ekki ferðast lengi þegar hann kom í þorpið Nepó. Nepó lifði á námavinnslu. Þorpið átti gull-, silfur- og demantanámur. Flestir þorpsbúa höfðu viðurværi sitt af því að vinna í námunum.
Tvírekur ákvað að staldra við og fékk vinnu í silfurnámunni. Svo gerðist það sem einstaka sinnum hendir unga menn, hann varð ástfanginn af stúlku.
Tvírekur var alveg sáttur við að setjast að í Nepó því auk námanna voru níu fyrirtæki sem sérhæfðu sig í að vinna demanta, silfur og gull.
Þrjár hreinsunarstöðvar sáu um að forvinna demantana, silfrið og gullið. Þá voru sex smiðjur sem sérhæfðu sig í vinnslunni og þar af var eitt, Caterva,  sem sérhæfði sig í silfurarmböndum. Tvírekur sá ekki betur en framtíðin væri björt. Vissulega var erfitt að fá vinnu hjá skartgripasmiðjunum þar sem fólk vildi frekar vinna þar en í námunum og margir höfðu sérhæft sig til þess. En hann efaðist ekki um að einn daginn fengi hann tækifæri. Því varð úr að Tvírekur settist að í Nepó með henni Doreen sinni.


2. kafli.

Eins og við mátti búast stökk Tvírekur ekki beint í starf hjá Caterva. Hann efaðist þó ekki um að hans tími myndi koma. Þegar hann sá auglýst starf hjá Factio, silfurhreinsunarstöðinni, sótti hann um það og fékk. Þá fékk hann einnig hlutastarf hjá Pravum sem smíðaði silfurhálsmen. Þar var Brynhildur, eldri kona og flakkari eins og hann,  yfirmaður og varð þeim vel til vina. Undi Tvírekur nú glaður við sitt.
En þar sem vinnan í námunum var mjög erfið og illa launuð þá var hún ekki eftirsótt. Þorpsbúarnir vildu betra líf en þar sem litla sem enga aðra vinnu var að hafa í þorpinu þá flutti fólk í burtu. Þegar fór saman að lítið kom úr námunum og eftirspurn eftir skartgripum minnkaði þá var ekki nema um eitt að ræða: Sameina fyrirtæki.
Sumir vildu sameina öll fyrirtækin undir eitt og búa þar með til fjölbreytta og volduga skartgripasmiðju. Bæjarráðið vildi það ekki því þá þyrfti að segja upp fólki. Var ákveðið að sameina fyrirtækin eftir þeim tegundum sem þau sýsluðu við. Gullframleiðslan var sett undir Grex, silfurframleiðslan undir Caterva og demantarnir undir Secta.


3. kafli.

-Hvernig gengur með Brynhildi?
-Ekki vel, frú. Hún telur sig yfirmann yfir Pravum og hlýðir mér ekki.
-Það er svona, þetta flakkarapakk. Okkar fólk á að sitja í þessum stöðum, ekki flakkarar.
-Það vill því miður þannig til að við eigum engan sem getur sinnt þessari stöðu.
-Ekki enn þá en það kemur að því. Losaðu okkur við Brynhildi sama hvað það kostar, Ríkharður. Því lengur sem hún situr því erfiðara verður að losna við hana.
-En mun bæjarráðið samþykkja ....
-Vertu ekki svona barnalegur.


Með sameiningunni varð að fækka forstjórum, núna voru hreinsunarstöðvarnar og hálsmenjasmiðjurnar aðeins útibú með útibússtjórum.
Brynhildi fannst, eins og fleirum, eðlilegt að sér væri boðin útibússtjórastaðan hjá Pravum þótt um stöðulækkun væri að ræða. En það var ekki gert heldur var staðan auglýst. Hún gat auðvitað sótt um en Ríkharður, forstjóri Caterva, sótti það ekki stíft.
Þar sem hún var búin að festa rætur í Nepó með fjölskyldu sinni ákvað hún að sækja um stöðuna, enda hafði hún allt til að bera sem óskað var eftir ásamt reynslunni. Fór eigi að síður svo að annar flakkari fékk stöðuna. Var látið að því liggja að Brynhildur hefði aldrei verið starfi sínu vaxin.
Sá Brynhildur sína sæng útreidda og flutti burt með fjölskylduna.


4. kafli.

Tvíreki líkaði mjög vel við Brynhildi og vildi hafa hana áfram sem yfirmann. Leyndi hann ekki þeim stuðningi. Að auki voru þau Brynhildur ágætis vinir. Innfæddir héldu saman. Tvírekur var ekki útilokaður, en hjartanlega velkominn var hann ekki heldur.
Hinn nýi yfirmaður, Bauer, frétti af þessum stuðningi og varð strax Tvíreki afar óvinveittur. Allt sem Tvírekur lagði fram var ómögulegt. Var þó aldrei sýnt fram á hvað væri ábótavant.
Varð ástandið að endingu óbærilegt og sagði Tvírekur upp hlutavinnu sinni hjá Pravum.
Tvírekur óttaðist mjög að með stuðningi sínum við Brynhildi og leiðindunum við Bauer væri hann fallinn í ónáð hjá Ríkharði. Sá ótti virtist þó ástæðulaus.
Aukin eftirspurn varð á silfri til notkunar í lyklaborðum svo ákveðið var að búa til undirdeild frá Factio sem sérhæfði sig í því. Var Tvírekur beðinn um að hafa yfirumsjón með deildinni sem nefnd var Dolus. Með Tvíreki yrði einn starfsmaður ásamt íhlaupafólki. Þótti Tvíreki vænt um þetta traust.


5. kafli.

Leið nú árið og vissi Tvírekur ekki betur en allt gengi vel. En á uppgjörsfundi fyrir árið tilkynnti Ríkharður að því miður hafi eftirspurnin eftir silfri í lyklaborð ekki verið jafnmikil og vonir stóðu til og yrði því að leggja Dolus niður og segja upp þeim tveimur starfsmönnum sem þar höfðu unnið.
Tvírekur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann skildi ekki af hverju hann gat ekki horfið aftur að starfi sínu í Factio, Dolus var jú, aðeins undirdeild. Hann var löggiltur silfursmiður og kominn með talsverða reynslu.
Fyrst fékk hann engin skýr svör. Þegar hann gekk eftir þeim var látið að því liggja að hann hefði aldrei verið starfi sínu vaxinn.


6. kafli.

-Þú stendur þig vel , Ríkharður. Tryggð þín verður launuð. Þú og þínir þurfa ekkert að óttast. Afkoma ykkar er örugg.
-Þakka þér, frú, þakka þér kærlega.


Tvírekur var miður sín. Hann og Doreen voru komin með börn og buru og þótt Doreen hefði haldið áfram vinnu sinni í námunum þá var hann samt aðalfyrirvinna heimilisins. Hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Helst vildi hann taka upp föggur og fara með fjölskylduna en börnin voru fædd í Nepó og þekktu ekkert annað. Hins vegar hafði sá uggur vaknað í brjósti Tvíreks að þeirra biði ekki mikið betra hlutskipti, verandi börnin hans.
Doreen var líka fædd og uppalin í Nepó og vildi ekki fara. Ekki bætti úr skák að hún kenndi honum um hvernig komið var. Af hverju þurfti hann að setja sig upp á móti yfirmönnunum? Vissi hann ekki hvernig hlutirnir gengju fyrir sig? Hvurs lags bjáni var hann eiginlega?
Tvírekur ákvað því að harka af sér. Hann fékk vinnu í námunum þar sem alltaf vantaði fólk. Hann sótti silfur handa Ríkharði og þjónkunarfólki hans svo það gæti haft góða vinnu og átt betra líf en hann og börnin hans.  Sú vitneskja veitti ekki mikla starfsánægju.
En svo birti aðeins til. Hálsmenjadeild Grex hafði samband og bauð honum hlutastarf. Það var ekki mikið en það var þó alla vega eitthvað. Það var líka viðurkenning á því að hann væri ekki ómögulegur. Kannski gæti hann unnið sig inn með tíð og tíma...



Niðurlag.

Skömmu síðar var fleira fólk ráðið til starfa hjá Factio vegna stöðugrar eftirspurnar silfurs í lyklaborð. Þótti Tvíreki það furðum sæta. Ekki leið á löngu þar til Dolus var endurreist. Tvírekur sótti ekki um þær stöður. Hann vissi hvað til síns friðar heyrði.
Bæjarráðið ákvað að fara í frekari sameiningu og sameinaði Grex undir Caterva. Var Ríkharður settur yfir hið sameinaða fyrirtæki. Skyldmenni hans urðu fljótlega fjölmenn í fyrirtækinu.

Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri. Úti er ævintýri




All characters appearing in this work are fictitious. Any resemblance to real persons, living or dead, is purely coincidental.


Aðflutt og útskúfuð

Um vorið 2005 var auglýst eftir kennara í Árbót. Ég sótti um og fékk starfið. Ég stóð í þeim leiða misskilningi að það vantaði kennara á landsbyggðina en það er klárlega rangt. Alla vega er nóg af réttindakennurum hér.
Mér var fljótlega gert ljóst að yrði af uppsögnum yrði ég látin fara fyrst. Ég nýkomin með allt mitt hafurtask þvert yfir landið. Gaman.
Liðu nú samt 5 ár á meðan ég hékk á vinnu. En börnum í sveitum landsins fækkar sífellt. Svo kom skellurinn. 
Á þessum 5 árum gerðist hins vegar ýmislegt. Ég kynntist manni og gifti mig. Maðurinn minn er bóndi svo við erum átthagafjötruð hérna. Nú eru líka komin börn.
Ég seldi íbúðina mína í Reykjavík og setti aleiguna í óseljanlegt hús.
Það varð efnahagshrun og atvinnuleysi sem var nánast óþekkt á Íslandi varð alvöru vandamál. Skyndilega eru fjölmargir umsækjendur um stöður sem þar til hafði verið erfitt að manna.
Ég varð fertug og komst þar með í óvinsælasta hóp atvinnuumsækjenda.

Hér er enga vinnu að hafa. Ég sæki um það litla sem er auglýst. Fæ þá vinnu að sjálfsögðu ekki því annað hvort er engin alvara á bak við auglýsinguna eða búið að úthluta henni til vinar eða vandamanns.
Hér ræður klíkan öllu. Auðvitað verður því mótmælt hástöfum en það þarf ekkert nema skoða stöðuveitingar síðustu ára til að staðfesta orð mín.

Ef ég elskaði ekki manninn minn þá þyrfti ég ekki að vera hérna. Getiði ímyndað ykkur hvers lags álag það er á hjónaband?

Ég ætlaði ekki að tala um þetta í von um að eyðileggja ekki möguleika mína á vinnu. En ég get ekki séð að ég hafi neinu að tapa byrjandi mitt þriðja ár í atvinnuleysi.



Lausaganga búfjár - Leyfa eða banna

Atvinnumálanefnd Þingeyjarsveitar vinnur að því þessa dagana að útbúa Búfjársamþykkt fyrir sveitarfélagið. Eru uppi hugmyndir um lausagöngubann stórgripa. Ég aðhyllist það hins vegar ekki og vil gjarna gera grein fyrir af hverju.

 

Við búum í landbúnaðarhéraði.

Hverjir eru það sem halda samfélaginu okkar uppi? Það eru þeir einstaklingar sem koma með tekjur utan frá. Þeir sem skaffa útsvarið en lifa ekki á því. Fólk sem vinnur utan sveitarfélagsins eða eru með sjálfstæðan atvinnurekstur innan þess. Bændur eru þar í miklum meirihluta. Leyfi ég mér að fullyrða að búskapur er hryggjarstykkið í samfélaginu okkar.  Að mínu viti væri nær að koma meira til móts við bændur og gera þeim lífið auðveldara en að vera sífellt að auka á þeim kröfur. Nóg er nú samt.

Skv. Vegalögum 50. gr. er lausaganga búfjár á stofn- og tengivegum bönnuð. Verði slys þar sem lausaganga er ekki bönnuð fær búfjárhaldari bætur fyrir sína gripi. Sé hún bönnuð þarf hann að hafa sérstaka tryggingu. Ber þess að geta að dómstólar eru nú farnir að dæma eftir aðstæðum og búfjárhaldari ekki sjálfkrafa dæmdur bótaskyldur.

Hins vegar verða bændur að gæta þess að kaupa tryggingu ef lausagöngubann verður sett. Sum félögin eru með svona tryggingu inni í tryggingarpakkanum en þykir mér nokkuð ljóst að allar viðbótatryggingar lækka ekki iðgjaldið.

 

Ég er ekki að firra bændur ábyrgð á sínum skepnum. Mér finnst bara eðlilegt að ganga út frá því að fólk sé almennt ábyrgðarfullt og skynsamt og annað heyri til undantekninga. (Sbr. hugmyndin um bonus pater familias í lögfræði.)

 

Mismunun.

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarréttur er afskaplega lítils virði ef nýtingarréttur fylgir ekki með. Og það er afskaplega lítil sanngirni  í því að sumir megi nýta afréttir en aðrir ekki.

Þá er það óþolandi að fólk sé sett í þá aðstöðu að vera algjörlega upp á meðeigendur sína komið um það hvort og hvernig það má nýta sína eigin eign á meðan meðeigandinn má nýta hana að hentugleikum.

Þá er það undarlegt að sauðfjárbændur séu ekki settir undir sömu kvaðir og aðrir bændur þar sem nokkur umræða hefur skapast í samfélaginu um ágang búfjár á gróðurlendi og þá kvöð á landeigendur að þurfa að girða lönd sín gegn ágangi búfjár svo ekki sé talað um skylduna til að smala skepnum annarra.

Engin lög hindra lausafjárgöngu búfjár á jörðum annarra og hefð gerir ráð fyrir að hún sé heimiluð þrátt fyrir að vera í algerri andstöðu við nútíma búhætti í hinum vestræna heimi. Dæmi um þetta er hvernig sauðfjárbændur nýta gróðurþekju og skógarbeit á jörðum annarra til eigin atvinnustarfsemi, þar á meðal skógarbænda. Þeir verða fyrir miklum búsifjum með atvinnustarfsemi sína og engin lög vernda þolendur fyrir ágangi búsmala né eru viðeigandi stofnanir tilbúnar að hlutast til um þetta ágreiningsefni.

Vil ég nú taka fram að ég hef enga löngun til hefta nýtingarrétt sauðfjárbænda og styð heils hugar lausagöngu sauðfjár. Ég tel það hins vegar mismunun að setja aðeins lausagöngubann á stórgripi og bendi vinsamlega á að einnig eru til rök gegn lausagöngu sauðfjár. Miklu eðlilegra er að miða við ítölu þegar ákveðið er hversu mikið hver landeigandi má beita.

 

Matvælaöryggi.

Mikið hefur verið rætt um matvælaöryggi. Sérstaklega af andstæðingum ESB aðildar en það hangir talsvert meira á spýtunni en bara það. Mannkyninu fjölgar með ógnarhraða og telur Christian Anton Smedshaug sem kom hingað til lands í boði Bændasamtakanna það vera skyldu allra þjóða að framleiða eins mikinn mat og mögulegt er.. Ein af leiðunum til þess er að nýta allt það land sem hægt er undir matvælaframleiðslu.

,,Hins vegar ættu öll lönd að einbeita sér að því að framleiða svo mikið korn sem mögulegt er. Það þýðir að mikilvægi aukinnar beitar í úthögum, skógum og á fjöllum eykst.” Bændablaðið 13.01. 2011

 Það hlýtur að skjóta skökku við að nú eigi að meina bændum að beita lönd sín.

 

Dýravernd.

Að lokum vil ég benda á að umræða um dýravernd hefur aukist talsvert og verksmiðjubúskapur gagnrýndur. Við hljótum öll að vilja aðbúnað skepna sem bestan og útivera og möguleiki á hreyfingu hlýtur að vera ein forsenda þess.

Að meina bændum að nýta afréttir sínar á sama tíma og auknar kröfur um útiveru koma fram í samfélaginu stuðlar að meiri útgjöldum og kjaraskerðingu í framhaldinu. Bændur eru nú þegar að kikna undan hækkandi eldsneytis- og áburðarverði. Þá er reglugerðarfarganið orðið yfirgengilegt. Það síðasta sem atvinnulífið vantar er fleiri boð og bönn.


Að auglýsa stöður

Ég er þeirrar skoðunar að auglýsa eigi flestar (helst allar) stöður innan sveitarfélagsins. Mér er ljóst að margir eru ósammála mér í því og nota rök á við: ,,Það þarf að þekkja til samfélagsins." Ég vísa því á bug. Hvað þýðir þetta: Að þekkja til samfélagsins? Þýðir það ekki einfaldlega að þekkja valdahlutföllin? Að rugga ekki bátnum?  Viljum við búa í svoleiðis samfélagi?

Fólk flytur burt í stórum stíl því miður svo það er skiljanlegt í slíku samfélagi að vilja halda þeim sem eru. Þess vegna m.a. eru stöður iðulega ekki auglýstar. Þá eru líka notuð trikk eins og að búa fyrst  til hlutastarf sem þarf ekki að auglýsa og svo þegar ,,réttur” einstaklingur er kominn í starfið þá er það stækkað.  Þegar stöðurnar eru auglýstar þá eru kröfurnar klæðskerasniðnar að viðkomandi. Stundum vantar ekkert nema að umsækjandi eigi að heita þessu nafni. Samt kemur fyrir að utanaðkomandi sækir um og hefur kostina til að bera. Þá er honum samt hafnað, skaðabæturnar greinilega ásættanlegur fórnarkostnaður.

Auðvitað er þetta ekki algilt en gerist of oft. 

Það er ekki það að ég skilji ekki hugsunina á bak við þetta. Þessa þörf fyrir að vernda það sem þó er til staðar.  Það er hins vegar fullvissa mín að þegar til lengdar lætur þá verður þetta innanmein banabiti samfélagsins. 

Í fyrsta lagi þá erum við ekki að fá hæfasta fólkið í stöðurnar. (Vissulega kemur það fyrir að sá hæfasti eða mjög hæfur fær stöðuna í handvalinu en myndi viðkomandi ekki fá hana hvort eð væri?) 

Í öðru lagi þá sitja ekki allir sveitungarnir við þetta borð. Það eru bara ,,réttu” sveitungarnir sem njóta þessara vildarkjara. Þegar fólk horfir upp á það árum saman að sumir fái alltaf bestu bitana á meðan aðrir eru úti í kuldanum þá ríkir ekki mikil samstaða né ánægja í samfélaginu.

Stefán Jón Hafstein segir í grein sinni Rányrkjubú:

  Hér glímum við ekki bara við það að pólitískum venslamennum er hyglað – smátt og smátt læra hinir að ekkert þýðir að bjóða fram krafta sína. Við fáum ekki bara kerfi sem upphefur þá löku heldur rekur burt þá hæfu. Niðurstaðan er rökrétt: Öll pólitík verður persónupólitík. Ef til vill er höfuðgallinn við kenninguna um frjálshyggjuhrunið að gleyma þessu grundvallaratriði í íslenskri stjórnmálamenningu: Hún er óskiljanleg ef menn vita ekki hver er hvurs og hvurs er hvað.


mbl.is Sveitarstjóri Þingeyjarsveitar lætur af störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir og Kristján Möller.

Í fyrra var boðaður mikill niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Heimamenn brugðust ókvæða við, mótmæltu hátt og snjallt og boðuðu til borgarafundar með þingmönnum héraðsins. Þar mættu þeir flestir og m.a. stjórnarþingmennirnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Kristján Möller.

Þessir menn héldu því fram fullum fetum að þeir myndu ALDREI samþykkja þennan niðurskurð. ALDREI.

Sigmundur Ernir, sem á sæti í fjárlaganefnd og kom að gerð þessara laga, sagði fundarmönnum það að í raun væru það EMBÆTTISMENN sem útbyggju flest lög og hann hafði bara ekki áttað sig á þessum mikla niðurskurði! (Nokkru síðar var DV með úttekt á manninum og þar kom fram hjá fjölda viðmælenda að hann væri ,,sérhlífinn". Það er fallegra orð yfir latur.)

Niðurskurðinum var frestað um eitt ár. Það verður spennandi að sjá hvernig hetjurnar greiða atkvæði núna.

Núna eru þeir auðvitað uppteknir við að rífa sig niður í rassgat yfir því að Innanríkisráðherra skyldi ekki leyfa góðum vini eiginmanns fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar að kaupa 0,3% af landinu. 

Ekki svo að skilja að ég haldi að þau tengsl skipti raunverulegu máli. Nei, þessir menn eru froðusnakkar á innantómum atkvæðaveiðum. Það eina sem þeim gengur til er að passa mjúku stólana sína.

Ef frú Jóhanna vill slíta þessu stjórnarsamstarfi þá geri ég þá kröfu að hún geri það sjálf á skýran og heiðarlegan hátt og láti ekki Knoll og Tott vinna fyrir sig skítverkin.


Áskorun til Davíðs Oddssonar.

Undanfarin ár hefur sitjandi forseti túlkað Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands og hefðir sem skapast hafa í embættisverkum forsetans með allt öðrum hætti en forverar hans í starfi.

Er svo komið að sitjandi forseti virðist með handaflinu einu saman ætla sér að breyta stjórnskipan landsins í svokallað ,,forsetaþingræði." Nýjasta útspilið er misskilningur og rangtúlkanir á tillögum Stjórnlagaráðs.

Því miður virðast flestir fagna þessum breytingum og fordæmalausa en jafnframt fordæmagefandi framgangi forsetans og núverandi eiginkonu hans.

Fáir virðast gera sér grein fyrir hinu stórpólitíska álitaefni sem hér um ræðir. Það eitt að barið sé á núverandi ríkisstjórn virðist afsaka allt. Það virðist gleymast að um stefnumótun til framtíðar er að ræða.

Nú er það ekkert launungarmál að ég styð hvorki núverandi forseta né framgöngu hans.  En ef meirihluti kosningabærra manna vill búa við ,,forsetaþingræði" þá mun ég að sjálfsögðu lúta því. Hins vegar hefur sú umræða aldrei farið fram né kosningabærir menn spurðir þess álits.

Sú umræða verður að fara fram. Það verður að skoða allar þær hliðar sem snúa að slíkri stjórnskipan. Til að svo megi verða verður mótframbjóðandi sitjandi forseta að vera málsmetandi, helst með mikla pólitíska reynslu, og á öndverðum meiði við forsetann. Einstaklingur sem nýtur það mikils persónufylgis að framboð hans sé raunhæfur valkostur.

Það er aðeins einn einstaklingur sem hefur þessa kosti til að bera og það er fyrrverandi forsætisráðherra landsins, herra Davíð Oddsson.

Því skora ég hér með á Davíð Oddsson að bjóða sig fram til forseta í næstu forsetakosningum 2012.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband