Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Drög að kynningarræðu

Það var gamall prestur í þorpi einhvers staðar sem hét séra Jón. Það gekk vík inn í landið og þegar var fjara þá stytti fólk sér leið þar yfir. Einn daginn fer séra Jón af stað þegar er fjara og fer þarna yfir. Nema hvað séra Jón er orðinn gamall og það byrjar að flæða að þótt hann sé ekki hálfnaður yfir. Þegar sjórinn nær honum að mitti kemur bátur og býður honum far. Séra Jón segir: ,,Neinei, Guð sér um sína" og heldur áfram. Þegar vatnið er farið að ná honum upp að handakrikum kemur annar bátur og býður honum far. ,,Neinei, Guð sér um sína." Svo drukknar séra Jón. Hann fer beint til himna, frekar fúll og heimtar samtal við Guð strax sem hann fær. ,,Ég er búinn að vera dyggur þjónn þinn í sextíu ár og svo læturðu mig bara drukkna eins og hund á sundi." Þá segir Guð: ,,Já, en Jón minn. Ég sendi tvo báta."

Þessi kraftaverkatrú er mjög sterk í Íslendingum samanber að nú á aðild að Evrópusambandinu að leysa allan vanda. En þessi eingyðistrú hefur líka ríkt gagnvart atvinnumálum. Þessi kraftaverkalausn sem á að bjarga öllu. Kraftaverkið er náttúrulega álver. Og af því að nú á að planta álveri í þennan landsfjórðung þá er ekki löguð salernisaðstaðan við Dettifoss. Það eru ekki lagaðir vegirnir inni í Bárðardal þar sem er stríður straumur ferðamanna að skoða Aldeyjarfoss. Heiðarbær vill verða heilsumiðstöð en, því miður, álið er málið.

Þar sem ég er álversandstæðingur og sit undir kröfum um að koma með þetta ,,eitthvað annað" er ég alltaf að reyna að koma með eitthvað annað.

Spa-City á Þeistareykjum þar sem ríkir Kanar koma í megrun. Hægt að tengja hana Heilsugæslunni.

Á Húsavík var (gæti vel verið enn) góður lýtalæknir sem sérhæfði sig í brjóstaaðgerðum. Hér er góð aðstaða. Af hverju eru ekki útvistaðar fleiri aðgerðir á landsbyggðina fyrst það eru biðlistar í Reykjavík? Frekar en að draga enn meira úr þjónustu eins og liggur alltaf í loftinu.

Hvar eru opinberu störfin sem átti að flytja á landsbyggðina?

Annað kraftaverk , míní-kraftaverk, eru háskólar. Það á að planta háskólum sem víðast. Í sumar sem leið var ég að horfa á fréttatíma þar sem verið var að fárast yfir umhverfismati á Bakka og hins vegar verið að tala um Listaháskólann. Risastór geimaldar bygging sem á að troða á milli gamalla húsa. Þá lýstur niður í höfuðið á mér: Listaháskóli á Bakka! Svo fer ég að viðra þessa hugmynd á blogginu og víðar og ég er náttúrulega bara eitthvað biluð. Þetta er algjörlega óraunhæft, ómögulegt og gengur aldrei upp. Sem er kannski alveg rétt en það má reyna að hugsa út fyrir boxið. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir 20-30 árum síðan að Húsvíkingar hefðu af því talsverðar tekjur að sýna hvali? En það sem að sló mig mest var að ég fór að tala um þetta í Kvenfélaginu. Við vorum nokkrar að smyrja flatbrauð og ég slengi þessu fram meira í gamni en alvöru. Konurnar horfðu bara á mig með áratuga vonbrigði í svipnum og svo kom: ,, Nei, við fáum það aldrei.” Í eitt skelfilegt augnablik var ég álverssinni.

Sem væri allt í lagi ef álið væri málið. En svo er ekki. Hvernig er staðan á Reyðarfirði og Egilsstöðum? Hvað standa margar íbúðir tómar þar? Hvar er allt hið blómlega mannlíf sem þar átti að ríkja? Svo kemur í ljós að efnahagslegur ávinningur Íslendinga af stóriðju er mesta lítill.

 Ég leigi húsnæði í skólanum. Þar eru átta íbúðir sem í öllum var búið 2005 þegar ég kom. Nú standa þrjár auðar. Í sumar flutti í burtu kennari af því að hann fékk ekki fulla stöðu. Það eru alltof fá börn í skólanum og þeim fer fækkandi. Bráðlega verða skólar sameinaðir, kennarar missa vinnuna og flytja þá væntanlega í burtu. Hvort kemur á undan, vinnan eða fólkið, eggið eða hænan?

Það verður að efla atvinnulífið þótt ekki sé nema til að halda þeim sem nú eru.

Fyrst verður að koma markviss stefna. Viljum við halda byggð utan höfuðborgarsvæðisins? Það er auðvitað langhagkvæmast að allir búi bara í hnapp, þá þarf ekki að halda úti vegum og heilbrigðisþjónustu og svo framvegis. En er ekki rétt að fólk hafi val? Og hvar á að vera með kýrnar í Reykjavík? Eða ætlum við bara að leggja niður matvælaframleiðslu í landinu? Það hefði verið huggulegt í október/nóvember ef kjötið okkar og mjólkin hefði staðið á bryggjum úti í heimi því við gátum ekki borgað fyrir það.

Ég ætla að gefa mér að við viljum halda byggð í landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Hvernig förum við að?

Það verður að laga tekjuskiptingu ríkis og sveita. Sveitafélögin verða líka að fá hlut í fjármagnstekjuskatti.

Það verður að gera fólki kleift að hefja búskap. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki fæðist inn í búskap ekki getað hafið hann vegna þess hve jarðir urðu dýrar (blessaðir auðmennirnir sprengdu upp verðið og lögðu af búskap á mörgum jörðum) og kvótinn. Útlánsvextir hafa alltaf verið alltof háir. Í góðæri af því að það þarf að halda niðri verðbólgu og í kreppu því það þarf að halda niðri verðbólgu!

Ríkið verður að standa við loforðin. (Opinberu störfin). Það fólk sem fær hugmyndir og vill framkvæma þær verður að fá til þess stuðning. Það er til fullt af flottu fólki með góðar hugmyndir. Fyrir ekki löngu síðan var talað við mann í útvarpinu sem selur þorskhrogn og gengur vel. Hann hefur þurft að bæta við sig starfsfólki. Hann þarf að reka fyrirtækið frá degi til dags því hann fær engar fyrirgreiðslur.

Við framleiðum um einn fjórða af því grænmeti sem við neytum. Hvernig væri nú að selja grænmetisbændum rafmagn á álverði? 

Síðast en ekki síst verður að hugsa út fyrir kassann. 

Það er að fjara undan landsbyggðinni og það verður að grípa í taumana. 

 


Minni hagsmunir

Þetta var nú einmitt hættan. Auðvitað eiga Íslendingar að nýta auðlindir sínar en hvers konar nýting er þetta? Það kaupir enginn þetta hvalkjöt. Japanir voru loksins að kaupa eitthvað sem er búið að liggja í frysti í marga mánuði. Efast um að það hafi fengist gott verð fyrir það.
Vinkona mín ein er í ferðaþjónustu og pósthólfið hennar fylltist af tölvupósti frá Þjóðverjum sem tilkynntu henni að þeir ætluðu ekki að koma til Íslands vegna hvalveiða síðast þegar veiðar voru leyfðar. Það má vera að þeir hefðu ekki komið hvort sem væri en þetta sýnir viðhorfið.
Það getur vel verið væmið og hallærislegt að vernda hvali en þegar mikill meirihluti annarra þjóða vill það þá er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með að halda hvalveiðum til streitu.
mbl.is Segir fjölda starfa tapast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar fór illa fyrir mér

Í fjósiKynningarbæklingurinn um frambjóðendur er kominn út. Égvar að vandræðast með mynd og valdi mynd úr fjósinu. Sjálf er ég með frekar sjálfumglatt glott á andlitinu en kálfurinn er alveg gullfallegur. Svo sést ekkert nema andlitið í bæklingnum. Ái..


Ekki spurning

Katrín á tvímælalaust að leiða annan hvorn Reykjavíkurlistann. Hefur staðið sig mjög vel og á eftir að gera góða hluti í framtíðinni.
mbl.is Vill leiða lista VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er það orðið formlegt.

Þetta er glæsilegur listi:)
mbl.is 21 í forvali VG í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðræðan

Í byrjun ætla ég að taka það fram að ég er flokksbundin í VG og er feministi.
Nú þegar er lesandinn búinn að mynda sér skoðun á því sem ég ætla að segja. Það er ágætt, svo framarlega sem hann er meðvitaður um það. Það skiptir nefnilega máli hver er segja hlutina, af hverju hann er að segja þá og hvað honum gengur til. Lesandinn verður líka að vera meðvitaður um eiginn hlutdrægni. Það er enginn hlutlaus.
Núna stöndum við í þeirri meiningu að við búum í opnu og frjálsu samfélagi þar sem tjáningarfrelsi ríkir. Stundum finnst mér tjáningarfrelsið túlkað ansi vítt, mér er t.d. fyrirmunað að skilja að klám sé tjáningarfrelsi. Enda virðist að þegar verið er að níðast á konum þá er það tjáningarfrelsi. Þegar níðst er á einhverjum öðrum eru það fordómar. Ég fagna kosningu Obama en þegar hann og Hillary Clinton voru að berjast um útnefninguna þá mátti nota hvaða orðbragð um hana sem var. Virkilega ljótt orðbragð. N-orðið var aldrei notað um hann enda hefði verið brugðist mjög harkalega við því. Þegar forsetakosningabaráttan sjálf var í gangi þá var á hrekkjavökunni sett upp e.k. brúða af Obama sem var umsvifalaust tekin niður af lögreglunni á grundvelli laga að það mætti ekki lítlsvirða minnihlutahópa. Á sama tíma fékk sambærileg brúða af Palin að standa dögum saman. Eru konur þó sannlega minnihlutahópur.
Um daginn var viðtal við Svövu Johanssen, athafnakonu, og Jón Ársæll spyr hana um jafnrétti . Hún svarar: ,,Ég er sko EKKI feministi en ég vil jafnrétti kynjanna.”
Feminismi er jafnréttisstefna sem vill að réttur kvenna til lífsgæða sé jafn rétti karla. Nú er búið að gildishlaða orðið. Það er neikvætt. Alveg nákvæmlega eins og rauðsokka er búið að vera í mörg ár. Það er verið að stýra umræðunni með því að gildishlaða orð svona. Oft er verið að þagga niður umræðu. Ef umræðan er þögguð þá breytist ekkert.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða atburði síðustu vikna og mánaða. Ég ætla nú samt aðeins að koma inn á það vegna þess hvað orðræðan er merkileg. Skömmu eftir fall ríkisstjórnar Geirs H. Haarde en áður en nýja stjórnin tók við var viðtal við formann Samtaka atvinnulífsins. Hann hafði dálitlar áhyggjur af þessari nýju stjórn. Hafði áhyggjur af því að upp verði tekin haftastefna og eitthvað svona meira leiðinlegt vinstri eitthvað og klykkti svo út með: ,,En ég treysti því að Íslendingar séu nú það skynsamir að þeir hverfi ekki aftur til haftastefnu.” Nú vissum við ekkert hvað þessi nýja stjórn ætlaði að gera en það var alveg ljóst að hún hafði aðrar hugmyndir en formaður samtaka atvinnulífsins enda heitir hann Þór Sigfússon, er bróðir Árna og vitaskuld sjálfstæðismaður. Nú er orðræðan ekki þannig að hann hafi aðrar skoðanir á málinu. Skoðanir hinna eru beinlínis heimskulegar. Samt erum við búin að búa við frjálshyggju og frelsi í 18 ár og sjáið hvar við erum. Fyrir áramót voru sett á mikil gjaldeyrishöft. Fólk sem vildi leysa út gjaldeyri þurfti að fara með farseðilinn í sinn viðskiptabanka. Það er frekar erfitt að fá ákveðnar vörur í verslunum. Þetta heitir ekki haftastefna.
Á undanförnum mánuðum og jafnvel árum hefur komið fram fólk sem hefur varað við ofvexti bankakerfisins. Það voru náttúrulega bara einhverjir neikvæðnipúkar sem skildu ekki íslenskt efnahagslíf. Og voru að tala niður krónuna. Ef einhver gagnrýndi ,,útrásarvíkingana” og takið eftir orðinu, víkingar. Þetta er orð sem tengist þjóðararfinum okkar og þjóðarstoltinu. Það er gildishlaðið jákvætt, andstætt feminista. Víkingar voru náttúrulega glæpamenn og þjófar og hvað kom á daginn. Orðið er engu að síður jákvætt. Það vitnar í karlmennsku og kjark. Og ef einhver leyfði sér að gagnýna þá var hann ekkert að hugsa um hag lands og þjóðar. Þessir menn voru að moka peningum inn í landið.
Ef einhver leyfði sér að gagnrýna ofurlaun bankastjóra þá var svarið: ,,Ábyrgðin er svo mikil.” Hvar er öll sú ábyrgð nú? Svo kom: ,,Þetta eru einkafyrirtæki og ykkur kemur þetta bara ekkert við.” Þegar kemur að því að borga skuldirnar, þá er þetta okkur ákaflega viðkomandi. Mig minnir að það hafi verið Sigurður Einarsson hjá Kaupþingi sem fékk Elton John til að syngja í afmælinu sínu. Þegar fólk gagnrýndi það þá sagði hann: ,,Ég nenni ekki að hlusta á einhverja öfundsjúka smáborgara.”
Umræðan var þannig: Þið eruð smáborgarar, þið eruð öfundsjúk, ykkur kemur þetta ekki við. Þetta eru útrásarvíkingar, íslenskar hetjur.
Umræðunni var stjórnað, hún var þögguð. Þessir menn rændu okkur ekki í skjóli nætur. Þeir rændu okkur beint fyrir framan augun á okkur.
En það eru ekki bara stjórnmálamenn, útrásarvíkingar og karlrembur sem leika þennan leik. Fjölmiðlarnir taka mjög virkan þátt í honum líka. Svo virkan að það má heita að þeir stjórni honum.
Í janúar stóð fólk hundruðum saman fyrir framan Alþingishúsið og stjórnarráðið og krafðist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Fjölmiðlamenn fluttu fréttir af þessu og iðulega í beinni útsendingu. Þegar stjórnin loksins féll þá sneru þessir sömu fjölmiðlamenn sér að Geir H. Haarde og spurðu: ,,Geir. Af hverju slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu?” Búsáhaldabyltingin er sögulegur viðburður en skyndilega skiptir hún engu máli. Orðræðan og raunveruleikinn fara ekki saman. Enda svaraði Geir að bragði: ,,Vegna þess að Samfylkingin er sundurtættur flokkur.” Leikurinn heldur áfram. Það eru að koma kosningar og stjórnmálamenn komnir í framboð. Fjölmiðlarnir verða að fylla blöðin og fréttatímana daglega. Raunveruleikinn er túlkunaratriði, við sköpum hann með orðræðunni. Í upphafi var orðið.


Seðlabankafrumvarpið

Ha! Líst þeim ekki á það !? Ég er svo aldeilis yfir mig bit, kjaftstopp og hlessa.

Hitt er annað mál að ef Davíð sæi sóma sinn í því að fara þá lægi ekki jafn mikið á nýju frumvarpi.


mbl.is Gagnrýna Seðlabankafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smámunir

Í fyrsta lagi kemur það ekkert stórkostlega á óvart að Geir misskilji eitthvað. Hann skilur ekki enn af hverju slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu. Tók bara alls ekki eftir því að það var ekki vinnufriður á þinginu vegna hávaða að utan.
Í öðru lagi; skiptir þetta einhverju máli? Er ekki bara verið að eyða tíma þingsins í smámuni?
mbl.is Segir túlkun Geirs byggja á misskilningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn á elliheimilið

Jón Baldvin og Davíð Oddsson virðast ekki átta sig á því að þeirra tími er liðinn.
mbl.is Segir þagnarmúr um formennsku í Samfylkingu rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gef kost á mér í forvali VG í Norðausturkjördæmi 4.-8. sæti.

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík. Stúdent úr MR 1990. Er með BA í bókmenntafræði og lauk kennslufræði til kennsluréttinda í HÍ 2002. Ég vann í 3 ár með námi á geðdeild Landspítalans. Eftir að námi lauk kenndi ég í þrjú ár í Fellaskóla í Rvk. Haustið 2005 flutti ég í Aðaldalinn og hóf störf í Hafralækjarskóla. Aðallega hef ég séð um heimakennslu á meðferðarheimilinu Árbót.

Var í stjórn BKNE 2006-2007. Varaformaður Svæðafélags VG í Þingeyjarsýslum 2006-2008.

Álversuppbygging á Bakka hefur aldrei verið raunhæfur kostur í mínum huga. Hins vegar tel ég að með þessum áformum og aðkomu ríkisstjórnarinnar að þeim hafi verið viðurkenndur vandi sem við er að etja á Norðausturlandi. Hér vantar atvinnu. Þótt hætt sé við álver þýðir það ekki að vandinn sé leystur. Hann þarf að leysa með raunhæfum aðgerðum. Undanfarin ár og áratugi hefur vantað byggðastefnu í landinu. Í raun hefur verið markvisst unnið gegn landsbyggðinni. Það er orðið tímabært að landsbyggðin fái sinn skerf af kökunni sem hún útvegar bróðurpartinn af hráefnunum í.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband