Fá allir að sitja við sama borð?

Maðurinn minn er með sykursýki eins og þúsundir annarra Íslendinga. Þetta er lífstíðardómur sem hefur í för með sér miklar breytingar á lífsháttum og hættu á mörgum alvarlegum fylgikvillum.
Minn maður er mjög passasamur og fylgir þeim ráðum sem hann fékk við uppgötvun sjúkdómsins. Því betur sem hann passar sig því minna þarf hann af lyfjum, því jafnari sem blóðsykurinn er því sjaldnar þarf hann að mæla hann. Í framtíðinni eru minni líkur á aukaverkunum eins og t.d. kransæðasjúkdómum. Þar sem við búum í velferðarsamfélagi þá eru lyfin hans og blóðsykursmælarnir niðurgreiddir. Þótt passasemi hans sé fyrst og fremst til þess fallin að viðhalda eigin lífsgæðum þá hlýst sú hliðarverkun af að útgjöld samfélagsins verða minni. Tala nú ekki um ef honum tekst, eins og ég vona auðvitað, að forðast alvarlegri fylgikvilla sykursýkinnar því þeim fylgja dýrar sjúkrahúsvistir, aðgerðir, aflimanir og örorka.
Allir vita að sykursjúkt fólk verður að forðast sykur. Það sem færri vita er að líkaminn, og þá meina ég líkami allra, bregst við hvítu hveiti eins og sykri. Því verður sykursjúkt fólk að forðast hvítt hveiti. Og þá erum við komin að ástæðu þessara skrifa.
Á sumrin fara Íslendingar í ferðalög. Það er gjarnan stoppað í vegasjoppum eða komið við í grillhúsum og veitingastöðum á viðkomandi stöðum. Ódýrast og einfaldast er að fá sér hamborgara eða samloku. Flest allir skyndibitar eru í brauði. Á öllum stöðum, alls staðar, er hvítt brauð. Stundum er hægt að fá venjulegt heilhveiti samlokubrauð í staðinn, oftast ekki. Til að losna við brauðið þarf að velja úr dýrari hluta matseðilsins eða fara á fínni veitingastað. Þegar við erum á ferðalögum þá standa okkur til boða þrír kostir: 1)Vera alltaf með nesti og setjast hvergi inn. 2) Þurfa alltaf að kaupa einn dýrasta réttinn á matseðlinum. 3) ,,Svindla” á mataræðinu. Þetta er það sem við höfum gert undanfarið, valið bara einn af þessum kostum. En þetta er náttúrulega ekki mjög hátt þjónustustig.
Ef við færum hringinn í kringum landið þá þyrftum við skv. valkosti eitt alltaf að passa upp á að vera í kaupstað á opnunartíma verslana, það mætti ekkert út af bregða. Við værum í slæmum málum ef það springi dekk. Skv. valkosti tvö þyrftum við að vera ívið ríkari en annað fólk. Við erum það ekki. Valkostur þrjú er ekki ósvipaður því að óvirkur alkóhólisti væri á ferð og hvergi fengist neitt nema áfengi. Hva! Er ekki allt í lagi að fá sér einn?
Þegar upp er staðið þá snýst þetta ekki bara um okkur eða ferðalög. Ekki er langt síðan að birt var viðtal við ungan mann í sjónvarpinu sem var orðinn blindur vegna ómeðhöndlaðrar og/eða illa meðhöndlaðrar sykursýki. Viðtalið var tekið vegna þess að börn og unglingar með sykursýki sinna sjúkdómnum mjög illa. Börn og unglingar vilja vera eins og hinir. Hinir krakkarnir fá sér nammi, drekka kók og borða hamborgara. Það er hægt að fá sykurlaust kók. Hugsið ykkur ef það væri nú hægt að fá hamborgara í heilhveiti brauði. Unglingurinn getur fengið sér kók og hamborgara eins og hinir krakkarnir án þess að leggja heilsu sína að veði.
En það er ekki bara sykursýki. Reglulega birtast fréttir um það að offita sé að verða alvarlegt vandamál. Það er talað um offitufaraldur. Börn og unglingar eru víst líka að verða alveg sérstaklega feit. Nú má segja að hver og einn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér og foreldrar á börnum sínum. Við vitum það hins vegar fullvel að fólk eyðir ekki jafn miklum tíma í matargerð og það gerði. Ef allir væru mjög meðvitaðir og hefðu nægan tíma þá gengju ekki allir þeir matsölustaðir sem ganga í dag. Ef öll börn hefðu alltaf komið nestuð í skólann þá hefði væntanlega ekki komið fram sú krafa að það ættu að vera mötuneyti í öllum skólum.
Nú má mér sem öðrum vissulega vera það ljóst að skyndibitar eru eðli sínu samkvæmt óhollir og það öllum. Hins vegar er skyndibitamatur í Danmörku ekki nándar nærri jafn óhollur og á Íslandi því þar er búið að banna notkun á hertri fitu. Í Svíþjóð er hægt að fá mjólkurlausan mat því margir eru með mjólkuróþol. Þá eru ótaldir allir þeir sem eru með glútenóþol.
Á Íslandi er hægðatregða algilt vandamál hjá eldra fólki. Hægðatregða stafar yfirleitt af trefjaskorti. Það eru engar trefjar í hvítu hveiti. Þær eru hins vegar í heilhveiti.
Ef einhver þarf að passa línurnar eða heilsuna þá þarf viðkomandi að borða ,,vondan” mat. Það er ímyndin sem við höfum. Þegar við heyrum að einhver þurfi að passa mataræðið þá sjáum við viðkomandi umsvifalaust fyrir okkur að naga gulrót. Þetta þarf ekki að vera svona. Danir hafa sýnt okkur það. Svíar hafa sýnt okkur að það er hægt að taka tillit til allra. Það er hægt að selja hamborgara í heilhveitibrauði, franskar kartöflur úr alvöru kartöflum  sem eru ekki djúpsteiktar í hertri fitu og eggjalausa kokteilsósu. Ef viljinn er fyrir hendi þá er þetta hægt. En ég er ekki að fara fram á þetta. Ég er aðeins að óska eftir þeim valmöguleika að geta fengið heilhveiti brauð í staðinn fyrir hvítt.



Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband