Áskorun til Davíðs Oddssonar.
2.10.2011 | 16:02
Undanfarin ár hefur sitjandi forseti túlkað Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands og hefðir sem skapast hafa í embættisverkum forsetans með allt öðrum hætti en forverar hans í starfi.
Er svo komið að sitjandi forseti virðist með handaflinu einu saman ætla sér að breyta stjórnskipan landsins í svokallað ,,forsetaþingræði." Nýjasta útspilið er misskilningur og rangtúlkanir á tillögum Stjórnlagaráðs.
Því miður virðast flestir fagna þessum breytingum og fordæmalausa en jafnframt fordæmagefandi framgangi forsetans og núverandi eiginkonu hans.
Fáir virðast gera sér grein fyrir hinu stórpólitíska álitaefni sem hér um ræðir. Það eitt að barið sé á núverandi ríkisstjórn virðist afsaka allt. Það virðist gleymast að um stefnumótun til framtíðar er að ræða.
Nú er það ekkert launungarmál að ég styð hvorki núverandi forseta né framgöngu hans. En ef meirihluti kosningabærra manna vill búa við ,,forsetaþingræði" þá mun ég að sjálfsögðu lúta því. Hins vegar hefur sú umræða aldrei farið fram né kosningabærir menn spurðir þess álits.
Sú umræða verður að fara fram. Það verður að skoða allar þær hliðar sem snúa að slíkri stjórnskipan. Til að svo megi verða verður mótframbjóðandi sitjandi forseta að vera málsmetandi, helst með mikla pólitíska reynslu, og á öndverðum meiði við forsetann. Einstaklingur sem nýtur það mikils persónufylgis að framboð hans sé raunhæfur valkostur.
Það er aðeins einn einstaklingur sem hefur þessa kosti til að bera og það er fyrrverandi forsætisráðherra landsins, herra Davíð Oddsson.
Því skora ég hér með á Davíð Oddsson að bjóða sig fram til forseta í næstu forsetakosningum 2012.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.