Ég er ekki fórnarlamb

letting-go.jpgFórnarlamb er ljótt orð. Það er ljótt og það er skammarlegt að vera fórnarlamb. Aumingjalegt. Það vill enginn vera fórnarlamb. Og hafi það gerst þá má enginn vita það.
Ég er ekki fórnarlamb. Ég er ekki lögð í einelti. Það væri skammarlegt. Það væri hlægilegt. Ég er ekki aumingi.
Þegar ég sendi fyrirspurn um aðstoð vegna þess að mórallinn væri svo vondur, og lýsti honum lítillega, þá fékk ég svar þess efnis að þau tækju ekki á ,,svona konkret málum en hefurðu kynnt þér litteratúr um einelti á vinnustöðum?” Ég hristi bara höfuðið, hvað var eiginlega að þessu fólki? En ég kynnti mér reglugerðina um einelti á vinnustöðum og fleira til. Það var margt líkt.
Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að mér leið illa. Án þess að ég vilji koma öðrum í vandræði þá leið öðrum illa líka. Ég man eftir samtali þar sem ég og viðmælandi vorum bara nokkuð hress af því að við: ,,höfðum fengið að vera í friði nokkuð lengi.” Nei, það er ekki í lagi.
Ég var búin að burtskýra andrúmsloftið á allan hátt: Vinnustaðurinn var smár og fór minnkandi. Það gat enginn verið öruggur um vinnuna sína. Hér er litla sem enga vinnu að hafa og uppsögn gat haft í för með sér langvarandi atvinnuleysi. Jafnvel brottflutning. Við svona aðstæður líður öllum illa. Heimsins besti yfirmaður og heimsins bestu vinnufélagar finna fyrir svona pressu. Það er ómögulegt að komast hjá því. Frekar þú en ég. Ég var aðflutt og skildi ekki menninguna. Þetta var smátt samfélag þar sem allir þekktu alla og þau gerðu bara ráð fyrir að ég vissi allt og kynni allt líka. ,,Við höfum alltaf gert þetta svona.” Þarna var unnið öðruvísi en á fyrri vinnustað og ég varð bara að átta mig á því. Ég gerði hlutina öðruvísi en þau. Ég gerði hlutina verr en þau… Það var ég... Ég var vanhæf… Ég reyndi að fela mig, læddist um. Reyndi að þóknast svo ég yrði ekki tekin á teppið. Var með stöðugan kvíðahnút í maganum.
En það var ekki ég. Þegar ég lýsti þessu fyrir vinum mínum og fjölskyldu þá fannst þeim þetta ekki í lagi. ,,Skrifaðu allt niður” sagði stéttarfélagsfulltrúinn í þriðja eða fjórða samtali ,,þetta er svo fljótt að gleymast.” Ég skrifaði niður.
Svo kom niðurskurðurinn og mér var sagt upp.
Ég sat heima hjá mér þann vetur og gerði lítið annað en að rifja upp og endurlifa síðustu 5 árin. Aftur og aftur. Seinna sagði fagaðili mér að ég hefði verið að ,,gera upp og vinna úr reynslunni.“
Kvíðahnúturinn var að rakna upp og vanlíðanin á undanhaldi en í staðinn var komin reiði. Þetta þurfti ekki að vera svona. Þetta andrúmsloft var ekki óhjákvæmilegt, þetta var ekki nauðsynlegt. Það þurfti ekki að brjóta niður faglegt sjálfstraust mitt. Já, ég varð reið. Ég var líka mjög reið út í sjálfa mig að hafa leyft þetta, að ég skyldi ekki segja eitthvað, gera eitthvað. Stöðva þetta. Ég var með bólgið skófar á sálinni sem hjaðnaði ekki. Fagaðilinn ráðlagði mér að gera ekkert. Ég væri aðflutt, ég myndi tapa þeim slag. Ég gerði ekkert. Ég var áfram reið.
Um jólin var mér boðið á sameiginlegt leik- og grunnskóla jólaball með barninu mínu. Ég gat ekki hugsað mér að mæta. Sem betur fer var vont veður og ballinu aflýst. Um vorið horfði ég á nýfædda barnið mitt og sá fram á 16 ára samskipti við þessa stofnun. Tilhugsunin var óbærileg.
Ég fékk fréttir af uppsögnum og mannaráðningum. Dómsmáli. Ég fékk fréttir af aðgerðaleysi í eineltismálum. Mér kom það ekki við. Ég beið bara eftir því að raunverulegir valdhafar sæju að eitthvað væri að. Þeir lokuðu augunum.
Ég fékk aðra vinnu. Mér leið ömurlega. Ég barðist við að skipta úr undirlægjugírnum en það var erfitt. Mitt faglega sjálfstraust var í molum.
Ég ákvað að ég yrði að ljúka þessum kafla í lífi mínu. Þetta gæti ekki og mætti ekki hafa vald yfir mér lengur. Ég hafði engu að tapa. Maðurinn minn gat misst snjómoksturinn en hann sagði að það yrði þá bara að hafa það. Ég birti bloggfærslu á mínu persónulega bloggi.
Ég var búin að skrifa þessa færslu margoft í mörgum myndum. Ég hafði skrifað hana sem alls konar bréf og alls konar formleg erindi. Ég sá ekki fram á að það hefði neitt upp á sig.
Ég vildi ekki benda á persónur því í raun held ég ekki að um eiginlegt einelti á vinnustað hafi verið að ræða. Ég held að þetta hafi verið ,,eitraður vinnustaður” (e. toxic workplace) þar sem e.k. samspil ótta um atvinnu, nándar og hefða hefur blandast svona illa saman.
Fyrir mér var þetta búið þarna. Ég hálfpartinn vonaði að færslan fengi ekki mikinn lestur en hún fékk einhverja dreifingu og yfir 800 heimsóknir.
Eftir áramótin birtist hún, án minnar vitundar, í fjölmiðli. Ég veit að hún vekur athygli. Það talar samt enginn fulltrúi ráðandi afla við mig um færsluna. Það hefur enginn samband. Það fannst engum ástæða til að ræða við mig um það sem þar kom fram. Ég hitti valdhafana á reglulegum fundum. Ekki orð. Bara opinber yfirlýsing í næsta blaði.
Ég ákveð að taka slaginn. Hann vindur upp á sig. Loksins er hringt. Þá er verið að reyna að hanka mig. Ég er vænd um lygi. 
Ég vissi að valdaklíkan myndi slá til baka.  Það kom mér ekki á óvart. Það kom mér hins vegar mjög á óvart hvaðan það kom. Fullyrðingarnar eru furðulegar. Útreikningar á valdi minnihlutafulltrúa þeir undarlegustu sem ég hef séð.  Samúðin öll hjá valdhöfunum. Aumingja þeir.
Ég fylgist agndofa með þórðargleði lesenda sem fagna og læka í hundraðatali að samherji minn stingi mig í bakið. Fólk sem hefur verið gengið fram hjá við stöðuveitingar fagnar þessum skrifum. Gamlir nemendur sem voru lagðir í einelti alla sína skólagöngu fagna boðskapnum.  Hafði fólk logið að mér? Fagaðilinn lækar skrifin.
Ég vissi að ég fengi ekki stuðning. Það kom ekki á óvart. En þetta kom á óvart. Ég hendi þessu fólki út af fésbókinni minni. Ég þarf þá ekki að horfa upp á þetta.
Þið megið alveg fyrirlíta mig.  Það er allt í lagi. Miklu betra en sjálfsfyrirlitningin.
Ég er ekki fórnarlamb.
 
 
catharsis_1247826.jpg





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband