Þegar ég var systir mín
19.7.2016 | 16:11
Fyrir 11-14 árum síðan átti ég tíma hjá þáverandi heimilislækni mínum í Reykjavík. Ég og fjölskyldan höfðum lengi verið hjá þessum lækni og þekkti ég hann af góðu einu. Í þetta skipti brá þó svo við að hann var mjög þurr á manninn, með leiðinlegan svip á andlitinu og virtist hafa lítinn áhuga á því sem ég var að segja, virtist helst vilja losna við mig sem fyrst. Ég skildi ekkert í því hvaðan á mig stóð veðrið og fannst þetta mjög óþægilegt.
Undir lok samtalsins spyr hann mig hvort ég sé "komin á örorkubætur, núna?" Ég varð undrandi á spurningunni og svaraði því neitandi og sagði honum hvar ég væri að kenna. Maðurinn gjörbreyttist, það lifnaði alveg yfir honum, kom bros á andlitið og hann byrjaði að spjalla. Varð maðurinn sem ég þekkti.
Ég var alveg jafngáttuð á þessum umskiptum og ég var á fyrri hegðun og skildi hreint ekkert í þessu. Þar til ég áttaði mig á hvað hafði gerst: Hann hafði ruglað mér saman við litlu systur mína.
Við systur erum mjög líkar og oft ruglað saman. Mig minnir að það hafi verið eitthvað um þetta leyti sem við vorum spurðar að því tvisvar sama daginn hvort við værum tvíburar. Litla systir mín hefur nú barist við kvíðatengt þunglyndi í rúm tuttugu ár. Á þessum tímapunkti var baráttan að spanna áratuginn og að verða ljóst að sjúkdómurinn hefði náð ákveðinni yfirhönd, að því leyti þ.e.a.s. að líf hennar yrði líklega ekki eins og væntingar stóðu til. Það eitt og sér er nógu erfitt. Að þurfa að takast á við svona viðhorf auðveldar lífsbaráttuna svo sannarlega ekki.
Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið vondur maður, svo sannarlega ekki. Hann var bara barn síns tíma. Ég hef líka unnið á geðdeild og veit að geðveilir geta verið erfiðir en það getum við hið svokallaða venjulega fólk verið líka. Öll erum við fólk hvort sem við erum geðveil, heil eða brotin.
Ég vil að lokum taka það fram að ég hef alltaf fengið góða þjónustu hjá heilbrigðiskerfinu. Fyrir utan þessar fimm mínútur þegar ég var systir mín.
Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið vondur maður, svo sannarlega ekki. Hann var bara barn síns tíma. Ég hef líka unnið á geðdeild og veit að geðveilir geta verið erfiðir en það getum við hið svokallaða venjulega fólk verið líka. Öll erum við fólk hvort sem við erum geðveil, heil eða brotin.
Ég vil að lokum taka það fram að ég hef alltaf fengið góða þjónustu hjá heilbrigðiskerfinu. Fyrir utan þessar fimm mínútur þegar ég var systir mín.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.