Drög að kynningarræðu
23.2.2009 | 14:10
Það var gamall prestur í þorpi einhvers staðar sem hét séra Jón. Það gekk vík inn í landið og þegar var fjara þá stytti fólk sér leið þar yfir. Einn daginn fer séra Jón af stað þegar er fjara og fer þarna yfir. Nema hvað séra Jón er orðinn gamall og það byrjar að flæða að þótt hann sé ekki hálfnaður yfir. Þegar sjórinn nær honum að mitti kemur bátur og býður honum far. Séra Jón segir: ,,Neinei, Guð sér um sína" og heldur áfram. Þegar vatnið er farið að ná honum upp að handakrikum kemur annar bátur og býður honum far. ,,Neinei, Guð sér um sína." Svo drukknar séra Jón. Hann fer beint til himna, frekar fúll og heimtar samtal við Guð strax sem hann fær. ,,Ég er búinn að vera dyggur þjónn þinn í sextíu ár og svo læturðu mig bara drukkna eins og hund á sundi." Þá segir Guð: ,,Já, en Jón minn. Ég sendi tvo báta."
Þessi kraftaverkatrú er mjög sterk í Íslendingum samanber að nú á aðild að Evrópusambandinu að leysa allan vanda. En þessi eingyðistrú hefur líka ríkt gagnvart atvinnumálum. Þessi kraftaverkalausn sem á að bjarga öllu. Kraftaverkið er náttúrulega álver. Og af því að nú á að planta álveri í þennan landsfjórðung þá er ekki löguð salernisaðstaðan við Dettifoss. Það eru ekki lagaðir vegirnir inni í Bárðardal þar sem er stríður straumur ferðamanna að skoða Aldeyjarfoss. Heiðarbær vill verða heilsumiðstöð en, því miður, álið er málið.
Þar sem ég er álversandstæðingur og sit undir kröfum um að koma með þetta ,,eitthvað annað" er ég alltaf að reyna að koma með eitthvað annað.
Spa-City á Þeistareykjum þar sem ríkir Kanar koma í megrun. Hægt að tengja hana Heilsugæslunni.
Á Húsavík var (gæti vel verið enn) góður lýtalæknir sem sérhæfði sig í brjóstaaðgerðum. Hér er góð aðstaða. Af hverju eru ekki útvistaðar fleiri aðgerðir á landsbyggðina fyrst það eru biðlistar í Reykjavík? Frekar en að draga enn meira úr þjónustu eins og liggur alltaf í loftinu.
Hvar eru opinberu störfin sem átti að flytja á landsbyggðina?
Annað kraftaverk , míní-kraftaverk, eru háskólar. Það á að planta háskólum sem víðast. Í sumar sem leið var ég að horfa á fréttatíma þar sem verið var að fárast yfir umhverfismati á Bakka og hins vegar verið að tala um Listaháskólann. Risastór geimaldar bygging sem á að troða á milli gamalla húsa. Þá lýstur niður í höfuðið á mér: Listaháskóli á Bakka! Svo fer ég að viðra þessa hugmynd á blogginu og víðar og ég er náttúrulega bara eitthvað biluð. Þetta er algjörlega óraunhæft, ómögulegt og gengur aldrei upp. Sem er kannski alveg rétt en það má reyna að hugsa út fyrir boxið. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir 20-30 árum síðan að Húsvíkingar hefðu af því talsverðar tekjur að sýna hvali? En það sem að sló mig mest var að ég fór að tala um þetta í Kvenfélaginu. Við vorum nokkrar að smyrja flatbrauð og ég slengi þessu fram meira í gamni en alvöru. Konurnar horfðu bara á mig með áratuga vonbrigði í svipnum og svo kom: ,, Nei, við fáum það aldrei. Í eitt skelfilegt augnablik var ég álverssinni.
Sem væri allt í lagi ef álið væri málið. En svo er ekki. Hvernig er staðan á Reyðarfirði og Egilsstöðum? Hvað standa margar íbúðir tómar þar? Hvar er allt hið blómlega mannlíf sem þar átti að ríkja? Svo kemur í ljós að efnahagslegur ávinningur Íslendinga af stóriðju er mesta lítill.
Ég leigi húsnæði í skólanum. Þar eru átta íbúðir sem í öllum var búið 2005 þegar ég kom. Nú standa þrjár auðar. Í sumar flutti í burtu kennari af því að hann fékk ekki fulla stöðu. Það eru alltof fá börn í skólanum og þeim fer fækkandi. Bráðlega verða skólar sameinaðir, kennarar missa vinnuna og flytja þá væntanlega í burtu. Hvort kemur á undan, vinnan eða fólkið, eggið eða hænan?
Það verður að efla atvinnulífið þótt ekki sé nema til að halda þeim sem nú eru.
Fyrst verður að koma markviss stefna. Viljum við halda byggð utan höfuðborgarsvæðisins? Það er auðvitað langhagkvæmast að allir búi bara í hnapp, þá þarf ekki að halda úti vegum og heilbrigðisþjónustu og svo framvegis. En er ekki rétt að fólk hafi val? Og hvar á að vera með kýrnar í Reykjavík? Eða ætlum við bara að leggja niður matvælaframleiðslu í landinu? Það hefði verið huggulegt í október/nóvember ef kjötið okkar og mjólkin hefði staðið á bryggjum úti í heimi því við gátum ekki borgað fyrir það.
Ég ætla að gefa mér að við viljum halda byggð í landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Hvernig förum við að?
Það verður að laga tekjuskiptingu ríkis og sveita. Sveitafélögin verða líka að fá hlut í fjármagnstekjuskatti.
Það verður að gera fólki kleift að hefja búskap. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki fæðist inn í búskap ekki getað hafið hann vegna þess hve jarðir urðu dýrar (blessaðir auðmennirnir sprengdu upp verðið og lögðu af búskap á mörgum jörðum) og kvótinn. Útlánsvextir hafa alltaf verið alltof háir. Í góðæri af því að það þarf að halda niðri verðbólgu og í kreppu því það þarf að halda niðri verðbólgu!
Ríkið verður að standa við loforðin. (Opinberu störfin). Það fólk sem fær hugmyndir og vill framkvæma þær verður að fá til þess stuðning. Það er til fullt af flottu fólki með góðar hugmyndir. Fyrir ekki löngu síðan var talað við mann í útvarpinu sem selur þorskhrogn og gengur vel. Hann hefur þurft að bæta við sig starfsfólki. Hann þarf að reka fyrirtækið frá degi til dags því hann fær engar fyrirgreiðslur.
Við framleiðum um einn fjórða af því grænmeti sem við neytum. Hvernig væri nú að selja grænmetisbændum rafmagn á álverði?
Síðast en ekki síst verður að hugsa út fyrir kassann.
Það er að fjara undan landsbyggðinni og það verður að grípa í taumana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.