Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
Manndómur og Landsdómur
10.6.2011 | 10:37
Það er ekki oft sem mig setur hljóða. Það átti sér samt stað fyrir skömmu þegar fregnir bárust af stuðningsfundi Geirs H. Haarde í Hörpu.
Það má deila um sanngirni þess að Geir standi einn eftir ákærður. Sumum, m.a. mér, hefðu þótt sanngjarnast að allir tilnefndir hefðu fengið ákæru. Svo fór ekki en það þýðir ekki að það sé ósanngjarnt að ákæra Geir. Það er altítt að ,,stjórinn" sé látinn bera ábyrgðina. Skipstjóri er gjarna látinn fara eftir nokkra slaka túra. Íþróttaþjálfarar einnig. Er það á einhvern hátt óeðlilegt að forsætisráðherra sé látinn bera ábyrgð á ríkisstjórn sinni?
Það má vel vera að Geir H. Haarde hafi ekki gert neitt rangt. Sé svo hlýtur þá ekki Landsdómur að komast að einmitt þeirri niðurstöðu?
Hvernig má það vera að maður sem komist hefur til æðstu metorða innan valdastofnana samfélagsins treysti nú ekki þessum sömu valdastofnunum? Valdastofnunum sem hann sjálfur átti þátt í að móta og manna. Hvað megum við hin þá segja?
Geir reynir að halda því fram að þeir einstaklingar sem nú halda um valdatauma sé ekki treystandi. Það má einu gilda. Ef kerfið er þannig uppbyggt að öllu skipti hvaða einstaklingar manna það þá er kerfið meingallað. Lítið fór nú fyrir gagnrýni Geirs á kerfið á meðan hann og flokkur hans sátu að völdum. Höfðu þeir þó nægan tíma til breytinga hefði hugur þeirra raunverulega til þess staðið.
Þá kvartar Geir sáran, í dýrasta sal landsins, yfir því hve kostnaðarsöm málsvörnin sé. Ég spyr aftur, hvað megum við hin segja?
Nú er þrískipting valdsins hornsteinn lýðræðisins. Dómsvaldið er einn hluti þess. Allir borgarar eiga þess kost að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Að sama skapi mega allir borgarar eiga þess von að vera stefnt fyrir dómstóla af hinum og þessum sökum. Það hefur fjöldi fólks lent í málaferlum að ósekju og borið af því kostnað.
Voru fjármála- og forsætisráðherralaunin virklega svo lág að Geir gat ekkert lagt fyrir? Eru lífeyrisréttindi alþingismanna skorin við nögl?
Kannski er ég barnaleg inn við beinið en ég hef alltaf borið ákveðna virðingu fyrir embættum. Forsætisráðherraembættið hefur mér t.d. alltaf þótt virðingarvert þótt því fylgi argaþras stjórnmálanna. Auðvitað er fólkið sem sinnir því hverju sinni bara venjulegt fólk og eflaust ósanngjarnt af mér að ætlast til að viðkomandi lagi sig að embættinu að ákveðnu leyti. En ég geri það samt. Vegna þessa kann ég því ákaflega illa að heyra fv. forsætisráðherra ,,væla" í fjölmiðlum.
Það má vera að þetta væl sé hluti af málsvörninni, að fá samúð hjá þjóðinni til að hafa áhrif á dóminn. En mér þykir þetta engan veginn við hæfi.
Það er engum blöðum um það að fletta að Geir H. Haarde var forsætisráðherra þegar íslensk þjóð varð fyrir því mesta efnahagsáfalli sem hún hefur orðið fyrir frá lýðveldisstofnun. Það má vera að forsætisráðherrann þáverandi beri á því enga ábyrgð og hafi ekkert getað gert til að forðast áfallið eða draga úr því. En er ekki eðlilegt að um það sé spurt? Geir H. Haarde hefur örugglega spurt sig þessa sjálfur. Hann segist viss um svarið.
Mikið væri það flott ef fv. forsætisráðherra sýndi æðruleysi og fagnaði kærkomnu tækifæri til hreinsa mannorð sitt eða greiða skuld sína við samfélagið ella.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)