Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Íslenskt ævintýr

Inngangur.

Einu sinni var ungur maður sem hét Tvírekur. Tvírekur var silfursmiður góður sem sérhæfði sig í smíði armbanda. Tvírek langaði til að sjá sig um í heiminum áður en hann festi rætur og fór á flakk.
Tvírekur hafði ekki ferðast lengi þegar hann kom í þorpið Nepó. Nepó lifði á námavinnslu. Þorpið átti gull-, silfur- og demantanámur. Flestir þorpsbúa höfðu viðurværi sitt af því að vinna í námunum.
Tvírekur ákvað að staldra við og fékk vinnu í silfurnámunni. Svo gerðist það sem einstaka sinnum hendir unga menn, hann varð ástfanginn af stúlku.
Tvírekur var alveg sáttur við að setjast að í Nepó því auk námanna voru níu fyrirtæki sem sérhæfðu sig í að vinna demanta, silfur og gull.
Þrjár hreinsunarstöðvar sáu um að forvinna demantana, silfrið og gullið. Þá voru sex smiðjur sem sérhæfðu sig í vinnslunni og þar af var eitt, Caterva,  sem sérhæfði sig í silfurarmböndum. Tvírekur sá ekki betur en framtíðin væri björt. Vissulega var erfitt að fá vinnu hjá skartgripasmiðjunum þar sem fólk vildi frekar vinna þar en í námunum og margir höfðu sérhæft sig til þess. En hann efaðist ekki um að einn daginn fengi hann tækifæri. Því varð úr að Tvírekur settist að í Nepó með henni Doreen sinni.


2. kafli.

Eins og við mátti búast stökk Tvírekur ekki beint í starf hjá Caterva. Hann efaðist þó ekki um að hans tími myndi koma. Þegar hann sá auglýst starf hjá Factio, silfurhreinsunarstöðinni, sótti hann um það og fékk. Þá fékk hann einnig hlutastarf hjá Pravum sem smíðaði silfurhálsmen. Þar var Brynhildur, eldri kona og flakkari eins og hann,  yfirmaður og varð þeim vel til vina. Undi Tvírekur nú glaður við sitt.
En þar sem vinnan í námunum var mjög erfið og illa launuð þá var hún ekki eftirsótt. Þorpsbúarnir vildu betra líf en þar sem litla sem enga aðra vinnu var að hafa í þorpinu þá flutti fólk í burtu. Þegar fór saman að lítið kom úr námunum og eftirspurn eftir skartgripum minnkaði þá var ekki nema um eitt að ræða: Sameina fyrirtæki.
Sumir vildu sameina öll fyrirtækin undir eitt og búa þar með til fjölbreytta og volduga skartgripasmiðju. Bæjarráðið vildi það ekki því þá þyrfti að segja upp fólki. Var ákveðið að sameina fyrirtækin eftir þeim tegundum sem þau sýsluðu við. Gullframleiðslan var sett undir Grex, silfurframleiðslan undir Caterva og demantarnir undir Secta.


3. kafli.

-Hvernig gengur með Brynhildi?
-Ekki vel, frú. Hún telur sig yfirmann yfir Pravum og hlýðir mér ekki.
-Það er svona, þetta flakkarapakk. Okkar fólk á að sitja í þessum stöðum, ekki flakkarar.
-Það vill því miður þannig til að við eigum engan sem getur sinnt þessari stöðu.
-Ekki enn þá en það kemur að því. Losaðu okkur við Brynhildi sama hvað það kostar, Ríkharður. Því lengur sem hún situr því erfiðara verður að losna við hana.
-En mun bæjarráðið samþykkja ....
-Vertu ekki svona barnalegur.


Með sameiningunni varð að fækka forstjórum, núna voru hreinsunarstöðvarnar og hálsmenjasmiðjurnar aðeins útibú með útibússtjórum.
Brynhildi fannst, eins og fleirum, eðlilegt að sér væri boðin útibússtjórastaðan hjá Pravum þótt um stöðulækkun væri að ræða. En það var ekki gert heldur var staðan auglýst. Hún gat auðvitað sótt um en Ríkharður, forstjóri Caterva, sótti það ekki stíft.
Þar sem hún var búin að festa rætur í Nepó með fjölskyldu sinni ákvað hún að sækja um stöðuna, enda hafði hún allt til að bera sem óskað var eftir ásamt reynslunni. Fór eigi að síður svo að annar flakkari fékk stöðuna. Var látið að því liggja að Brynhildur hefði aldrei verið starfi sínu vaxin.
Sá Brynhildur sína sæng útreidda og flutti burt með fjölskylduna.


4. kafli.

Tvíreki líkaði mjög vel við Brynhildi og vildi hafa hana áfram sem yfirmann. Leyndi hann ekki þeim stuðningi. Að auki voru þau Brynhildur ágætis vinir. Innfæddir héldu saman. Tvírekur var ekki útilokaður, en hjartanlega velkominn var hann ekki heldur.
Hinn nýi yfirmaður, Bauer, frétti af þessum stuðningi og varð strax Tvíreki afar óvinveittur. Allt sem Tvírekur lagði fram var ómögulegt. Var þó aldrei sýnt fram á hvað væri ábótavant.
Varð ástandið að endingu óbærilegt og sagði Tvírekur upp hlutavinnu sinni hjá Pravum.
Tvírekur óttaðist mjög að með stuðningi sínum við Brynhildi og leiðindunum við Bauer væri hann fallinn í ónáð hjá Ríkharði. Sá ótti virtist þó ástæðulaus.
Aukin eftirspurn varð á silfri til notkunar í lyklaborðum svo ákveðið var að búa til undirdeild frá Factio sem sérhæfði sig í því. Var Tvírekur beðinn um að hafa yfirumsjón með deildinni sem nefnd var Dolus. Með Tvíreki yrði einn starfsmaður ásamt íhlaupafólki. Þótti Tvíreki vænt um þetta traust.


5. kafli.

Leið nú árið og vissi Tvírekur ekki betur en allt gengi vel. En á uppgjörsfundi fyrir árið tilkynnti Ríkharður að því miður hafi eftirspurnin eftir silfri í lyklaborð ekki verið jafnmikil og vonir stóðu til og yrði því að leggja Dolus niður og segja upp þeim tveimur starfsmönnum sem þar höfðu unnið.
Tvírekur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann skildi ekki af hverju hann gat ekki horfið aftur að starfi sínu í Factio, Dolus var jú, aðeins undirdeild. Hann var löggiltur silfursmiður og kominn með talsverða reynslu.
Fyrst fékk hann engin skýr svör. Þegar hann gekk eftir þeim var látið að því liggja að hann hefði aldrei verið starfi sínu vaxinn.


6. kafli.

-Þú stendur þig vel , Ríkharður. Tryggð þín verður launuð. Þú og þínir þurfa ekkert að óttast. Afkoma ykkar er örugg.
-Þakka þér, frú, þakka þér kærlega.


Tvírekur var miður sín. Hann og Doreen voru komin með börn og buru og þótt Doreen hefði haldið áfram vinnu sinni í námunum þá var hann samt aðalfyrirvinna heimilisins. Hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Helst vildi hann taka upp föggur og fara með fjölskylduna en börnin voru fædd í Nepó og þekktu ekkert annað. Hins vegar hafði sá uggur vaknað í brjósti Tvíreks að þeirra biði ekki mikið betra hlutskipti, verandi börnin hans.
Doreen var líka fædd og uppalin í Nepó og vildi ekki fara. Ekki bætti úr skák að hún kenndi honum um hvernig komið var. Af hverju þurfti hann að setja sig upp á móti yfirmönnunum? Vissi hann ekki hvernig hlutirnir gengju fyrir sig? Hvurs lags bjáni var hann eiginlega?
Tvírekur ákvað því að harka af sér. Hann fékk vinnu í námunum þar sem alltaf vantaði fólk. Hann sótti silfur handa Ríkharði og þjónkunarfólki hans svo það gæti haft góða vinnu og átt betra líf en hann og börnin hans.  Sú vitneskja veitti ekki mikla starfsánægju.
En svo birti aðeins til. Hálsmenjadeild Grex hafði samband og bauð honum hlutastarf. Það var ekki mikið en það var þó alla vega eitthvað. Það var líka viðurkenning á því að hann væri ekki ómögulegur. Kannski gæti hann unnið sig inn með tíð og tíma...



Niðurlag.

Skömmu síðar var fleira fólk ráðið til starfa hjá Factio vegna stöðugrar eftirspurnar silfurs í lyklaborð. Þótti Tvíreki það furðum sæta. Ekki leið á löngu þar til Dolus var endurreist. Tvírekur sótti ekki um þær stöður. Hann vissi hvað til síns friðar heyrði.
Bæjarráðið ákvað að fara í frekari sameiningu og sameinaði Grex undir Caterva. Var Ríkharður settur yfir hið sameinaða fyrirtæki. Skyldmenni hans urðu fljótlega fjölmenn í fyrirtækinu.

Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri. Úti er ævintýri




All characters appearing in this work are fictitious. Any resemblance to real persons, living or dead, is purely coincidental.


Aðflutt og útskúfuð

Um vorið 2005 var auglýst eftir kennara í Árbót. Ég sótti um og fékk starfið. Ég stóð í þeim leiða misskilningi að það vantaði kennara á landsbyggðina en það er klárlega rangt. Alla vega er nóg af réttindakennurum hér.
Mér var fljótlega gert ljóst að yrði af uppsögnum yrði ég látin fara fyrst. Ég nýkomin með allt mitt hafurtask þvert yfir landið. Gaman.
Liðu nú samt 5 ár á meðan ég hékk á vinnu. En börnum í sveitum landsins fækkar sífellt. Svo kom skellurinn. 
Á þessum 5 árum gerðist hins vegar ýmislegt. Ég kynntist manni og gifti mig. Maðurinn minn er bóndi svo við erum átthagafjötruð hérna. Nú eru líka komin börn.
Ég seldi íbúðina mína í Reykjavík og setti aleiguna í óseljanlegt hús.
Það varð efnahagshrun og atvinnuleysi sem var nánast óþekkt á Íslandi varð alvöru vandamál. Skyndilega eru fjölmargir umsækjendur um stöður sem þar til hafði verið erfitt að manna.
Ég varð fertug og komst þar með í óvinsælasta hóp atvinnuumsækjenda.

Hér er enga vinnu að hafa. Ég sæki um það litla sem er auglýst. Fæ þá vinnu að sjálfsögðu ekki því annað hvort er engin alvara á bak við auglýsinguna eða búið að úthluta henni til vinar eða vandamanns.
Hér ræður klíkan öllu. Auðvitað verður því mótmælt hástöfum en það þarf ekkert nema skoða stöðuveitingar síðustu ára til að staðfesta orð mín.

Ef ég elskaði ekki manninn minn þá þyrfti ég ekki að vera hérna. Getiði ímyndað ykkur hvers lags álag það er á hjónaband?

Ég ætlaði ekki að tala um þetta í von um að eyðileggja ekki möguleika mína á vinnu. En ég get ekki séð að ég hafi neinu að tapa byrjandi mitt þriðja ár í atvinnuleysi.



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband